Jöklar

           Upplifun á Íslandi

 

Uppruninn:

Jöklar eru hús sem alfarið eru hönnuð hér á landi út frá gildandi byggingarlöggjöf.  Ekki er um að ræða innflutning á húsi sem hannað er fyrir erlenda markaði.  Kröfur á Íslandi eru alla jafna töluvert meiri en tíðkast erlendis og því fórum við þá leið að hanna hús frá grunni sem alfarið er útfært fyrir okkar harðgerðu aðstæður og jafnframt út frá okkar kröfuhörðu byggingareglugerð.  Það er því hægt að segja það með 100% vissu að húsin standast okkar byggingarlöggjöf.

Varðandi efnsival þá er allt efni í húsinu valið skv. stöðlum sem viðurkenndir eru hér á landi.  Allir verkþættir eru skilgreindir af íslenskri verkfræðistofu og húsin alfarið smíðuð eftir þeim.  Húsin eru einnig hönnuð og smíðuð eftir þeim hefðum, aðferðum og bygggingarmenningu sem við þekkjum hér á landi – ekkert kemur á óvart.

Nánar um húsin:

Jöklar eru að grunnstærð 24,3 fm.  Málsetning grunnflatar húsanna er 4,62 m x 5,26 m.

Möguleikar á stækkun:

Hægt er að lengja húsin að vild með því að bæta við einingum og er hver eining 60 cm að breidd.  Stækkun húsanna virkar þannig að húsið er alltaf 4,62m á breiddina en lengdin væri að lágmarki 5,26m.  Húsið stækkar um 2,77fm við hverja stækkun.  Hver lenging kostar kr. 239.000,- m/vsk.

Gable_house_ext

 

Hönnun:

Húsin eru teiknuð og hönnuð af íslenskri verkfræðistofu út frá íslenskri byggingalöggjöf og uppfylla því eins og áður segir allar þær kröfur sem gerðar eru til bygginga hér á landi. Allt efnisval er skv. íslenskum stöðlum og reglugerðum með tilheyrandi CE vottun skv. íslenskum lögum.

 

Útlitshönnun og viðmót:

Hönnun hússins gengur út á að vera stílhrein og látlaus þar sem umhverfið fær að njóta sín.  Einkunnarorð okkar eru „Upplifun á Íslandi“ en sú hugmynd byggir á því að húsin eiga að auka á ánægjulega dvöl gesta sem í þeim dvelja.  Mikil hönnunarvinna liggur að baki rýmisins og er markmiðið að húsin séu aðlaðandi, bæði í útliti og að innan ásamt því að vera praktísk vistarvera m.t.t. stærðar.

 

Nánar um uppbyggingu Jökla:

Húsin eru byggð úr timbri og eru í grunninn hefðbundin timburhús eins og við eigum að venjast hér á landi til áratuga, byggingar sem hafa góða reynslu við okkar harðgerðu aðstæður.  Það sem er nýtt við Jöklahúsin er annars vegar samsetningaraðferðin og hins vegar skipting efnispakkans í:

  • a) forsmíðaðar einingar
  • b) forsniðið efni.

 

Hugmyndafræðin:

Hugmyndafræðin og hönnunin gengur út á að húsið sé fljótlegt í uppsetningu en við skiljum þó eftir verkþætti sem kaupandi gerir sjálfur á staðnum.  Með þessu erum við í raun að færa hluta vinnunnar í hendur kaupanda í stað þess að láta framkvæma hana í verksmiðjum okkar.  Það sem er áunnið með því er umtalsvert hagstæðara verð sem við fáum í framleiðsluna og flutning og gengur það beint til kaupanda í formi hagkvæms kaupverðs á húsinu.  Þeir verkþættir sem kaupandi sér um eru þó þannig útfærðir að búið er að auðvelda þá eins og kostur er með því að tilsníða nánast allt efni.

Einnig er ekki allt í pakkanum sem þarf til þess að klára húsið en það er með ráðum gert.  Innra skipulag húsanna fer eftir notkun þeirra sem getur verið mjög mismunandi.  Einnig höfum við öll okkar smekk varðandi efnisval, þ.e.a.s. hvernig við viljum hafa húsin okkar að innan.  Þar af leiðir að bæði af hagkvæmnisástæðum og til þess að húsin henti sem flestum tókum við þá ákvörðun að ganga ekki lengra með húsið en við gerum.

 

Efnisval:

Veggjagrind: Útveggir eru gerðir úr timburgrind (2“ x 6“) og utan á grind er klætt með 12mm – 5 laga krossvið úr greni.  Klæðningin er standandi, bandsagaður greniviður (21mm að þykkt og klæðir 120mm).  Innveggir koma ekki með.

Klæðning: Klæðningin kemur tilsniðin og er hún sett á húsið þegar búið er að reisa það.  Klæðningin kemur ómeðhöndluð og því er allt opið varðandi litaval fyrir kaupanda.

ATH! Einnig er möguleiki að fá húsið með lerkiklæðningu.  Lerkið kemur frá Síberíu og er um að ræða afar fallegan lerkivið sem ekki er meðhöndlaður með neinum efnum.  Því þarf ekki að bera á húsið eins og þegar um er að ræða hefðbundna viðarklæðningu.  Lerkið gránar smátt og smátt og fær á sig náttúrulegt yfirbragð. 

Þak: Þakið er uppbyggt með kraftsperrum (2“ x 6“) og klætt með nótuðum þakborðum (sjá nánar á teikningu).  Þakið kemur með pappa sem þarf að bræða á, n.tt. tvöfaldur Icopal pappi sem er skv. kerfi Icopal.

Gólf: Gólfið er gert úr timburgrindarefni (2“ x 8“).  Gólfið kemur með 21mm nótaðri furugólfklæðningu sem hægt er að nota sem endanlegt gólfefni.  Undir gólfgrind er 6mm krossviður og músanet.

 

Efnisval burðarviðar:

Allur burðarviður hússins er að styrkleikaflokki C24 – CE vottað sbr. kafl a VIII í mannvirkjalögum.

 

Gluggar og hurðir:

Gluggar og hurðir eru úr timbri með CE vottun og koma með hertu öryggisgleri – 6-16-4.  (Þ.e.a.s. ytra gler er 6mm – loftbil 16mm og innra gler er 4mm).  Gluggar og hurðir koma málaðir og er hægt að velja um tvo liti, þ.e.dökkgráan eða hvítan.  Assa húnar og læsingar eru í gluggum og hurðum og er hurðin með þriggja punkta læsingu. Hurð er með eikarþröskuldi og kemur með hurðapumpu. Hurð og gluggar koma glerjaðir.

 

Auka gluggar og hurðir:

Hægt er að fá auka glugga í húsin.  Alla glugga samskonar þeim sem nú þegar eru í húsinu er hægt að fá aukalega.  Einnig er hægt að fá minni opnanlega glugga í eftirfarandi stærðum:

  • 53,5cm að breidd og 53,5cm að hæð – opnanlegt fag (topphengdur)
  • 53,5cm að breidd og 120cm að hæð – opnanlegt fag (hliðarhengdur)
  • 75cm að breidd og 120cm að hæð – opnanlegt fag (hliðarhengdur) – B.O. (Björgunarop sem þarf í herbergi skv. reglugerð)
  • 114cm að breidd og 120cm að hæð – lóðréttur millipóstur í miðju – ekki opnanlegt fag
  • ATH – Einnig er hægt að fá glugga og hurðir eftir sérteikningu, allt eftir óskum.

 

Undirstöður:

Undirstöður eru hefðbundnar, þ.e.a.s. steyptir stöplar eða sökkulbitar sem er á vegum kaupanda. Undir grunnhús Jökla (þ.e.a.s. óbreytt hús) koma fjórir dregarar og undir hverjum eru 4 steyptir stöplar eða 4 sökkulbitar.

 

Afhending og skilalýsing:

Húsin eru afhend í Hafnarfirði. Kaupandi sér um flutning þaðan.

Húsin afhendast ósamsett miðað við skilalýsinguna;  „Tilbúin að utan, fokheld að innan“.  Það þýðir að í efnispakkanum er allt efni (samsett eða tilsniðið) til þess að gera húsið fullbúið að utan (fyrir utan málningu/viðarvörn).  Að innan eru veggir tómir, þ.e.a.s. það sem eftir er að gera til þess að húsið sé tilbúið undir tréverk er:

  • Einangrun
  • Rakasperra
  • Rafmagnsgrind
  • Milliveggir+hurð
  • Loftaþiljur
  • Lagnaefni

Efni í það sem að ofan er talið (að undanskildu lagnaefni) er um 307.000 m/vsk skv. tilboði úr timburvöruverslun hér á landi.

Teikningar:

Aðalteikningar fylgja húsunum og eru afhentar kaupanda við staðfestingu pöntunar á tölvutæku formi (Autocad). Kaupandi sér um endanlega hönnunarvinnu, s.s. staðsetningu hús á lóð, afstöðumynd o.s.fr. Ef húsi er breytt, t.d. lengt eða gluggum bætt við eru slíkar breytingar á teikningum á vegum kaupanda. Þar sem aðalteikningarnar eru afhentar á DWG formi (Autocad) er aðgengilegt fyrir hönnuð kaupanda að vinna með þær áfram.

Burðarþols- og lagnateikningar eru á vegum verkfræðistofunnar Eflu sem geta klárað málið fyrir kaupanda og verið í samskiptum við byggingaryfirvöld.  Grunngjald hönnunarvinnu er kr. 100.000,- og er inni í því uppáskrift hönnuðar fyrir þann þátt.  Hægt er að gera breytingar á burðarþols- og lagnateikningum og kostar það aukalega miðað við umfang hverju sinni. Möguleiki er að fá burðarþols- og lagnateikningar fyrir grunnhúsið óuppáskrifaðar og eru þær þá afhentar á PDF formi eða DWG.

 

Uppsetningartími:

Við áætlum að það taki 2-3 menn 4-5 daga að klára húsið að utan skv. okkar skilalýsingu.  Landshús er í sambandi við byggingaverktaka sem taka að sér uppsetningar á Jöklahúsunum og gefa föst verð í uppsetningu.

Sýningarsvæði:

Sýningarhúsið okkar er staðsett á Garðatorgi í Garðabæ (við hliðina á Dominos Pizza) og eru allir velkomnir að líta við.  Ef óskað er eftir því að fá að kíkja inn í húsið er hægt að panta skoðun í s. 553-1550.